Arkitekt bygginganna er Arnar Þór Jónsson hjá Arkís og segir hann að ný hugsun hafi verið tekin inn í hönnunarferlið sem gefur betra aðgengi að inngarðinum fyrir hjólafólk og gangandi vegfarendur.
Byggingarnar eru í u-laga formi og sitja fram á hamrinum sem gefur stórum hluta íbúðanna einstakt útsýni yfir Elliðaárvoginn og borgina.
Garðurinn er hannaður af landslagsarkitektinum Aðalheiði Kristjánsdóttur og hefur bæði sérafnotareiti og sameiginleg svæði. Gott aðgengi er að garðinum sem stendur það hátt að úr honum er einnig frábært útsýni.
Skoðað var hvernig húsið og inngarðurinn snýr gagnvart gangi sólar.
Þá var skoðað hvernig skjólmyndun er við húsið en ríkjandi vindátt er austanátt.
Húsin munu henta fyrir allar fjölskyldustærðir en það er líka tekið tillit til þeirra sem vilja yfirvegaðra umhverfi. Inngangur D mun verða fyrir fólk komið af léttasta skeiðinu og ætlað fyrir þá sem hafa náð 55 ára aldri.